Orð í miklu meiri minnihluta en meirihluti minnihlutahópa

Réttsýnu lesendur.

Aftur er hann mættur, hinn réttsýni og réttláti Einar Haf. Laus við fordóma, laus við þröngsýni og laus við að tilheyra minnihlutahópi. Maðurinn með réttu skoðanirnar lætur nú loks í sér heyra – þó að vísu sé það á kolvitlausum vettvangi þar sem allir eru hættir að lesa svona bloggsíður. Auðvitað er mér alveg drullusama, það er ekki eins og ég sé í þessum bransa til að afla mér vinsælda. Ég er bara að þessu af því þetta er svo vel borgað.

Það hefur nú komið upp úr dúrnum að það eru ekki til eins miklir peningar í innviðauppbyggingu og talið hafði verið í upphafi. Þetta er gríðarlega óvænt og kemur í raun eins og holóttur malarvegskafli úr heiðskíru malbiki. Eða eitthvað svoleiðis. Þingmenn í minnihluta, eða minnihlutahóp, telja samgönguráðherra vera úti að aka í þessu máli – enda gangi það ekki lengur að slá nauðsynlegum framkvæmdum á frest. Þessu er ég auðvitað afar ósammála, enda vita það allir að frestur er á illu bestur. Ég meina, þetta hlýtur að reddast. Þegar fjölskylduvænir svifbílar eins og sáust í myndunum Back to the future koma á markaðinn verður þetta vandamál úr sögunni. Réttara væri auðvitað að eyða þessum fáu krónum sem til eru í að endurreisa bókaútgáfuna Skjaldborg – eins og þar síðasta ríkisstjórn hafði lofað ítrekað.

Nokkuð er deilt um það á samfélagsmiðlum þessa dagana hvaða minnihlutahópar séu í raun mestu minnihlutahóparnir í samfélaginu. Ég myndi giska á feita transmenn, svokallaða transfitumenn, enda verða þeir daglega fyrir aðkasti þeirra sem eru hvorki feitir né transmenn. Konur eru kannski ekki minnihlutahópur en tónlistarkonur eru það svo sannarlega – og þær verða heldur betur fyrir aðkasti svokallaðra tónlistarmanna. Viðmælendur í fréttatímum sem mæta til að svara spurningum um fordóma eru oftar en ekki í minnihluta og verða fyrir fordómum fréttamanna sem eru í enn fleiri og merkilegri minnihlutahópum. Ég ætla að breyta svarinu mínu síðan áðan; feitir örvhentir kventransmenn sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona – þeir eiga samúð mína alla. Við skulum ekki fordæma þetta fólk, það er í minnihluta og getur ekkert að því gert.

Ef allir væru í minnihluta væri þetta örugglega ekkert mál og við værum laus við mjög stóran hluta (meirihluta) allra þessara fordóma. Ástandið er hins vegar ekki svo gott. Alltaf skal meirihlutinn vera í meirihluta og aumingja minnihlutinn í minnihluta, þar sem hann þarf að þola fordóma og ofríki meirihlutans.

Sjónvarpsmaður ársins hélt því fram nýverið að Mottumars væri lítið annað en fjárplógsstarfsemi til handa auglýsingastofum og öðrum blóðsugum samfélagsins; minnstur hluti (minnihluti) þeirra yfirvaraskeggja sem safnað væri í mars rynnu til krabbameinsrannsókna. Ég veit reyndar ekki hvernig yfirvaraskegg ætti að hjálpa til við krabbameinsrannsóknir en kannski er ég bara svona rúðustrikaður. Þeir sem ekki safna yfirvaraskeggi í mars eru í minnihluta og verða þar af leiðandi fyrir aðkasti þeirra sem safna yfirvaraskeggi og eru í meirihluta. Sem sagt: feitir örvhentir kventransmenn ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona – þeir eiga samúð mína alla. Við skulum ekki fordæma þetta fólk, það er í minnihluta og getur ekkert að því gert.

Söngvakeppni sjónvarpsins er í algleymingi þessa dagana, sem þýðir að sumir hafa alveg gleymt keppninni. Samkvæmt fréttum vefmiðla er fjör að færast í leikinn – og ekki er enn komið á hreint hvaða lög verða í meirihluta og hvaða lög verða í minnihluta. Samkvæmt rannsóknum mínum munu engir feitir örvhentir kventransmenn ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona taka þátt í keppninni að þessu sinni. Þetta er nokkuð undarlegt þegar haft er í huga hvaða lag vann Eurovision keppnina árið 2014. En hvað veit ég svo sem um tónlist.

Ef minnihlutans málpípur
reyna að malda í móinn,
Dabbi Grensás gírugur
grýtir þeim í sjóinn.

Úbbs, þetta voru nú kannski ekki æskilegar málalyktir. En engar áhyggjur, lesendur þessarar bloggsíðu eru alveg örugglega í minnihluta og hafa þar af leiðandi um margt alvarlegra að hugsa heldur en þessa slöppu vísu.

Einar í meiri minnihluta en flestir.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Mín skoðun er RÉTT!!!

ps. Engum feitum örvhentum kventransmönnum ekki með yfirvaraskegg sem ættleitt hafa barn með hálfum útlendingi sem jafnframt er tónlistarkona var misþyrmt við gerð þessarar bloggfærslu.

One thought on “Orð í miklu meiri minnihluta en meirihluti minnihlutahópa”

  1. Hver er í mestum minnihluta á Alþingi? Getur þú svarað því Einar?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *