Orðin í súrnum

Þorralegu lesendur.

Já það er ekki um að villast. Upp úr súrnum kemur Einar Haf í öllu sínu veldi með enn eina bloggfærsluna. Þetta er að verða frekar kæst og illa lyktandi allt saman og þá er ég að tala um bloggið, en ekki þorramatinn gómsæta. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er, bloggið er ekki lesið þó á síðuna sé komið og enginn veit hvaða þorramat átt hefur fyrr en kíkt hefur í trogið.

Nú á Þorranum ákváðu Alþingismenn að snúa aftur til starfa eftir jólaleyfi. Mun betur gekk að reka þjóðfélagið meðan svokölluð starfstjórn var við lýði – en það má skilja þetta þannig að stjórnin sem nú er við völd sé ekki starfstjórn og starfi þar af leiðandi ekki. Hvort þetta sé villandi orðalag eða bara sannleikurinn á auðvitað eftir að koma í ljós. Forsætisráðherra lagði ríka áherslu á jafnvægi í eldhúsdagsumræðunum sem sjónvarpað, útvarpað og andvarpað var ofan í kokið á landsmönnum síðasta þriðjudagskvöld. Auðvitað er mikilvægt að vera í jafnvægi. Fjárhagslegu, andlegu og líkamlegu jafnvægi. Ég get auðvitað trútt um talað, þeir sem lesið hafa bloggsíðu Einars Haf síðasta áratuginn vita það auðvitað að mér fer afar illa að predika um mikilvægi andlegs jafnvægis þegar skrif mín endurspegla augljóslega eitthvað annað. Varðandi eldhúsdagsumræðurnar kom það auðvitað ögn á óvart að sjá hversu margir þingmenn voru niðursokknir ofan í snjallsímana sína meðan á umræðunum stóð. Ég var svo hneykslaður á þessu að ég fór beinustu leið í snjallsímann minn og lýsti furðu minni á þessu opinberlega á samfélagsmiðlum.

Dónald Trömp forseti Bandaríkjanna hefur nú ákveðið að hefjast handa við vegginn mikla milli Mexíkó og Bandaríkjanna. Þarna er loksins kominn maður sem tekur það alla leið að byggja svokallaða skjaldborg eins og margoft var rætt um að gera hér á landi eftir fjármálahrunið þarna um árið. Að vísu átti sú skjaldborg að vera utan um heimilin í landinu en Trömp ætlar að byggja sína skjaldborg utan um sjálfan sig og losna þar með við að þurfa að hafa nokkur afskipti af einhverjum skítugum Mexíkóum, dópistum og glæpamönnum sem streyma þvers og kruss yfir landamærin.

Íslensku sjónvarpsefni hefur heldur betur vaxið fiskur um hrygg síðustu misseri. Þættir eins og Ófærð, Réttur, Hraunið, Pressa, þættir Magga Texasborgara og stillimyndin hafa borið hróður okkar víða. Nýjasta skrautfjöðurin í þennan hatt eru þættirnir Fangar. Þættirnir fjalla um aðþrengdar konur í íslensku kvennafangelsi. Ef ég væri lesblindur myndi ég fagna þessu en ég er ekki lesblindur og þar af leiðandi fanga ég bara. Hmm…hvaða rugl er þetta eiginlega? Ná þættirnir að fanga áhorfendur? Horfi ég á Fanga? Þeim áfanga hef ég náð já.

Nú um helgina verður Þorrinn með stóru Þ-i blótaður í Svarfaðardal og eflaust víðar. Skemmtiatriði kvöldsins verða sjálfsagt ekki af verri endanum frekar en endra nær – nema kannski eitt atriði sem ég veit ekki hvernig verður. Kem ég þar nálægt? Já reyndar. Ég ætla að troða upp og lesa ágrip af bloggfærslum mínum síðustu 10 ár til að koma fólkinu í rétta gírinn. Eftir þann þriggja tíma lestur mun allt hljóma fyndið, sama hvað sagt verður á sviðinu. Á blótinu verður sungið og það verður dansað og það verður skálað – en svo má auðvitað ekki gleyma matnum. Nammi namm. Súrir pungar, súr hvalur og súrmeti af ýmsu tagi. Ég er ekki súr á því hver mun sjá um tónlistina á blótinu en ég giska á Súr Paul McCartney.

Á blótum Þorra bragða ég
á bóndans matarflóru
sviðasultan kræsileg
hákarlslyktin yndisleg
úr trogi risastóru.

Þess má til gamans geta að sjö þingmenn gerðu læk á og fjórir þingmenn deildu stefnuræðu forsætisráðherra meðan á eldhúsdagsumræðum stóð. Enginn var pókaður.

Einar í troginu.

Tilvitnun dagsins:
Allir: ÞORRABLÓT! GAMAN!!

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *