Orðin í húminu

Ljúfu lesendur.

Það er aldeilis notaleg stemmningin hérna hjá okkur í kvöld. Dauf kertaljósin flökta í biksvartri skammdegisnóttinni. Glitrandi jólasería lýsir upp fölnaða birkihríslu í bakgarðinum. Máninn veður í skýjum en glottir þess á milli niður á hrímaða jörðina. Bloggarinn grúfir kengboginn yfir nýjustu afurð sinni og svitinn perlar á efri vörinni. Stemmningin er hætt að vera kósý. Mér er eiginlega ekki orðið um sel. Og selnum er reyndar ekkert vel við mig heldur ef út í það er farið.

Jólin nálgast nú af miklum hraða og stefna til okkar án þess að nokkur fái þar rönd við reist. Jólaverslunin er komin á fullan skrið og allt stefnir í nýtt eyðslumet almennings nú fyrir þessi jól. Það er svo sannarlega blússandi góðæri og uppsveifla og það ætla greinilega margir að taka þátt – enda von á kauphækkunum á næstunni. Stjórnmálamenn sem nýverið fengu 40% launahækkun ráðleggja fólki þó að hafa hemil á sér og að ekki sé hægt að búast við því að laun hækki sem nokkru nemi – ekki viljum við að verðbólgan fari á flug og éti upp allt sem áunnist hefur. Þið vitið alveg hvernig þetta er – þegar gamanið stendur sem hæst er maður sleginn í gólfið og blauta tuskan kemur í smettið á fullri ferð. Ljósið er skærast rétt áður en það slökknar, bátsferðin er skemmtilegust rétt áður en kemur að fossinum, krossfitið er best alveg þar til kemur að lyfjaprófinu og kosningaloforðin eru ánægjuleg alveg þangað til eftir kosningar. Allt er í heiminum hverfult og ég er kominn á villigötur.

Hvað er svo að frétta af hinum meintu stjórnarmyndunarviðræðum? Tja, það eru allir bara alveg sultuslakir og pollrólegir. Flokkarnir fimm sem slitu viðræðum um daginn eru byrjaðir aftur að kynnast hverjum öðrum og leggja drög að tilhugalífinu. Mikið er nú gott að heyra það. Áfram er þó deilt um það hver það verði sem fær að flytja þjóðinni áramótaávarp á Gamlárskvöld í beinni sjónvarpsútsendingu. Það er eina málið sem strandað hefur á hingað til, við fylgjumst spennt með. Og þá meina ég spennt eins og í spennitreyju.

Veðurfræðingar klóra sér í hausnum yfir veðurkortunum þessa dagana. Óvenjulega hlýtt hefur verið í veðri og hafa blóm sums staðar sprungið út nú í svartasta skammdeginu. Fyrir nokkrum dögum streðaði ég við að moka snjó ofan af leiðunum í Urðakirkjugarði svo setja mætti niður ljósakrossa – staðan núna er hins vegar þannig að ég þarf að fara að ræsa garðsláttuvélina á nýjan leik. Hverju er um að kenna? Ég veit það ekki, en ég veit hverjum ég ætla að refsa. Ég ætla að refsa marauðu malbikinu og nagladekkunum mínum, gott ef ég spóla ekki bara næst þegar ég kemst út á þjóðveginn. Þessir naglar spæna sig ekki úr sjálfir….

Fyrsti jólasveinninn, Stekkjastaur, er á leið til byggða þessa stundina. Það er því vissara að vera á varðbergi í fjárhúsunum, enda hefur þessi jólasveinn verið frægur fyrir það í gegnum tíðina að laumast í fjárhúsin og leika á bóndans fé. Jafnvel hefur hann gengið svo langt að sjúga ærnar þrátt fyrir að vera með staurfætur….þetta er verulega dónalegt – en hver veit hvað getur gerst nú á fengitímanum.

Talandi um það, jólin eru greinilega á næstu grösum nú þegar Einar Haf segir frá því opinberlega á bloggsíðu sinni að komið sé að þeirri stóru stundu að hrútarnir fái að vitja um fé sitt. Ójá, þeir eru klárir í að leggja inn í bankann og ávaxta fram í maíbyrjun þegar loks afkvæmin litlu og sætu koma í heiminn og hringrás lífsins heldur áfram sem fyrr. Það er allt til reiðu, jólin koma snemma í ár og hrútarnir líka. Hmm, fyrirgefðu – síðan hvenær varð þessi bloggsíða svona klúr og dónaleg? Síðan bara….ALLTAF!!!

Fjölmargir eru búnir að skrifa á öll jólakort nú þegar. Ef þeir hinir sömu fara að monta sig af því segi ég bara: ekki vera með þetta jólagort! Ég gæti haldið svona áfram í alla nótt. Ekki? 🙁

Yfir kaldan eyðisand og snjó
streðar jólasveinn í vetrarró
óþægur í glugga set ég skó
og hefnist fyrir það með naflaló.

Höfum hugfast að það er ljótt að dæma aðra…..nema auðvitað ef þú ert dómari.

Átti dómarinn hlutdeildarskírteini í sjóði 9 hjá Glitni eða átti Glitnir hlutdeildarskírteini í dómaranum í sjóði 9? Átti sjóður 9 hlutdeildarskírteini dómarans í Glitni eða var það öfugt? Sama hvernig það var þá var dómarinn hæfur. Var hæfur…ekki vanhæfur. Höfum það líka hugfast.

Einar hugfastur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Út af með dómarann!

One thought on “Orðin í húminu”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *