Orð í frekar bundnu jólamáli

Góðir lesendur.

Segja vil ég sögu
af snjallsímunum þeim
sem tröllriðu öllu
um heim og geim.

Þeir oní vösum sáust
eins og margur veit
og gerðu fólkið vitlaust
í borg og sveit.

Síma girndust sveinar,
– um jólin birtust þeir.
Og einn og einn þeir komu,
en aldrei tveir og tveir.

Þeir voru þrettán
þessir símamenn,
sem ekki vildu ónáða
allir í senn.

Að dyrunum þeir læddust
og drógu lokuna úr.
Og símanna þeir leituðu
um eldhús og búr.

Lævísir á svipinn
þeir leyndust hér og þar,
til símastuldurs vísir,
ef enginn nærri var.

Og eins, þó einhver sæi,
var ekki hikað við
að hrekkja fólk og trufla
þess heimilisfrið.

Símastaur kom fyrstur,
stinnur eins og tré.
Hann laumaðist í æfón
og millifærði fé.

Hann vildi nota öppin,
– engum var um sel,
snapptjatt, kass og tinder,
– það gekk furðuvel.

Símagaur var annar,
með Samsunginn sinn.
– Hann skreið ofan úr gili
og skaust á jútjúb inn.

Hann faldi sig í netheimum
og væ-fæi stal,
meðan tölvukonan átti
við tölvukarlinn tal.

Stúfur hét sá þriðji
snjallsíminn sá.
Hann krækti sér í blútúð,
þegar kostur var á.

Hann hljóp í burt með símann
og hringdi í dömurnar,
og gældi oft á tíðum
við barminn hér og þar.

Sá fjórði, Símasleikir,
var gráleitur og sljór.
Og ekki varð hann glaður,
þegar hleðslusnúran fór.

Þá þaut hann eins og elding
og snúruna greip,
og hélt með báðum höndum,
því hún var stundum sleip.

Sá fimmti, Símaskefill,
var skrítið kuldastrá.
– Þegar börnin fengu sjö S
hann barði dyrnar á.

Þau ruku upp, til að gá að
hvort message væri á ferð.
Þá flýtti’ ann sér að símanum
fyrir lítið verð.

Sá sjötti, Appasleikir,
var alveg dæmalaus. –
Hann fram undan rúmunum
rak sinn ljóta haus.

Þegar fólkið setti öppin
fyrir kött og hund,
hann slunginn var að ná þeim
og sleikja á ýmsa lund.

Sjöundi var Símaskellir,
– sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í símann
mala í moll og dúr.

Símtölunum sleit hann
og nældi tækin í
og aldrei leiddist honum
að taka selfí.

Símjarmur, sá áttundi,
var skelfilegt naut.
Hann bömperinn á símanum
með hnefanum braut.

Svo sveipaði hann skjáinn
og yfir honum gein,
uns ekkert sást þar meira
svo stundi hann og hrein.

Níundi var Símakrækir,
brögðóttur og snar.
Hann hentist upp í rjáfrin
og póstaði þar.

Á fésbókinni var hann
og gerði að leik
að gera læk og deila,
þvílík steik.

Tíundi var Símagægir,
grályndur mann,
sem laumaðist á skjáinn
og leit fast á hann.

Ef eitthvað var í símanum
álitlegt að sjá,
hann oftast nær seinna
í það reyndi að ná.

Ellefti var Símaþefur,
– aldrei fékk sá kvef,
og hafði þó svo hlálegt
og heljarstórt nef.

Hann ilm af smáforritum
upp á heiðar fann,
og léttur, eins og reykur,
á lyktina rann.

Símkrókur, sá tólfti,
kunni á ýmsu lag. –
Hann sett’upp hjá sér Twitter
á Þorláksmessudag.

Hann krækti sér í æfón,
þegar kostur var á.
Stundum reyndist langur
hans símreikningur þá.

Þrettándi var Símasníkir,
– þá var tíðin köld,
ef ekki fór í appstore
á aðfangadagskvöld.

Hann elti litlu börnin
sem brostu, glöð og fín,
og trítluðu um bæinn
með snjalltækin sín.

Á sjálfa jólanóttina,
– sagan hermir frá, –
í símum sínum voru
og störðu skjána á.

Fyrir löngu í símunum
er fennt í þeirra slóð.
– snjalltækin seint breytast
í myndir og ljóð.

Höf. óþekkur.

ps. Ef þið gerið læk, kvittið og deilið lendið þið sjálfkrafa í risaáramótahappdrættispotti bloggsíðu Einars Haf, dregið verður úr pottinum rétt fyrir miðnætti á Gamlárskvöld – strax og árlegri vörutalningu í sjoppu Umf. Þorsteins Svörfuðar á Rimum lýkur. Þeir sem vinna áramótapottinn fá í vinning eldgamala og endurunna áramótahugvekju frá Einari Haf. Það fá hugvekjuna reyndar allir, hvort sem þeir vinna í pottinum eða ekki. Spæling.

Einar í símanum.

Tilvinun dagsins:
Allir: Hvar er síminn minn?

One thought on “Orð í frekar bundnu jólamáli”

  1. Var að spá í því að færa mig yfir í símann til að skrifa athugasemdina en sleppti því enda upptekinn í appi þar.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *