Ár við orðamót

Góðir Íslendingar.

Við áramót er við hæfi að draga andann djúpt (og muna að anda frá sér aftur), líta um öxl eða axlir, líta yfir sviðið þó það sé sviðið og virða fyrir sér atburði ársins sem er hér um bil alveg liðið í aldanna skaut. Jafnframt er gott að íhuga þá stund sem er og enn fremur horfa björtum augum á komandi mánuði og misseri. Áramótahugvekjur á borð við þessa eru einmitt kjörinn vettvangur fyrir slíkt þó að vissulega séu allar líkur á að áramótahugvekjan mislukkist ef haft er í huga hver það er sem stendur á bak við hana. Hugvekjan er venju samkvæmt uppfull af duldum áróðri og leyndum skilaboðum til lesenda en það er bara eins og tíðkast í öllum alvöru áramótahugvekjum.

Íslendingar eru þrautseig þjóð. Hér í nyrsta hafi hefur þjóðin þraukað hverja pláguna og hörmungina á fætur annarri, ævinlega drifin áfram af bjartsýni og eldmóð. Margar hafa þær verið lífsbjargirnar gegnum tíðina. Þegar á móti blæs sækja Íslendingar ekki aðeins kraft sinn og styrk í óbeislaðar náttúruauðlindir þessa lands, sem ferðamenn eru að vísu að verða búnir með það besta úr. Þeir sækja líka í menningararfinn. Fjársjóðskistu ljóða- og sagnamanna sem uppi hafa verið á liðnum öldum.

Ég rúlla með crewinu
Vagg og velta á loopinu
Hey fokk þú og þitt pulsupartý því ég bara chilla með rúsínum
En ég sé bara útlínur
Þegar ég dett úr rútínu
Stelpur og strákar curious
Stærri en Hafþór Júlíus

Ó shit
Mamma viltu mæla mig, ég held ég sé orðinn veikur
Ó shit
Mamma viltu mæla mig því ég er orðinn svo heitur

Djamma eins og ég eigi afmæli.

Eins og sést á þessu kvæði sem ort var á árinu sem er að líða, trúlega af einhverjum í 12 ára bekk, er það því miður að mestu liðin tíð að bætist í gullkistu ljóða- og sagnamanna. Allt var betra hér áður fyrr. Meitlaðar ljóðlínur horfinna tíma sem hafa lifað með þjóðinni mann fram af manni munu vonandi verða í heiðri hafðar áfram, ekki veitir af eins og dæmin sanna.

Íslendingar eru heppin þjóð. Þó svo að það blasi kannski ekki alltaf við og þó svo að hér áðan hafi ég minnst á plágur og hörmungar þá er hér allt í blússandi uppsveiflu. Þetta sýna hagtölurnar. Hagvöxturinn er kominn á syngjandi skrið aftur, lagvöxtur er ágætur meðal tónlistarmanna og þvagvöxtur hefur sjaldan verið meiri sem skýrist af ríkulegri neyslu á jólabjór. Verst hvað gengur illa að útskýra þetta fyrir þeim sem standa í biðröð eftir mat eða hafa dvalið á atvinnuleysisskránni langtímum saman. Eldri borgarar og öryrkjar hafa lengi staðið í röð og einnig hafa þeir staðið undir hagvexti og hagsæld þjóðarinnar – langt hefur verið seilst í vasa þessa fólks en það má alltaf gera betur.

Jón Sigurðsson hefði orðið hundgamall á árinu hefði hann lifað. Sömu sögu má segja um Hannes Hafstein og Jónas Hallgrímsson. Hvað skyldu þessir menn hafa velt sér marga hringi í gröfinni á árinu yfir hinu og þessu uppþotinu, hinu og þessu klúðrinu og hinu og þessu hneykslinu? Það er engin leið að vita, við getum aðeins ímyndað okkur það. En burtséð frá öllu klúðri og allri vitleysu þá skulum við sem þjóð líta stolt og bjartsýn fram á veginn. Við höfum jú enn íslensku sauðkindina – þessa glæsilegu og tignu skepnu. Hún á heima í öllum áramótahugvekjum enda ein lífæða samfélags okkar enn þann dag í dag þó svo að lítið fáist fyrir hana á sláturhúsi. Það er sama hvar borið er niður, alltaf kemur féð við sögu. Fjármálagjörningar, fjárplógsstarfsemi, fjárdráttur, fjári góður, kindarlegur, sauður, gemsi, alveg ær, súrsaðir hrútspungar. Nokkur hugtök sem eru okkur Íslendingum töm og við eigum að þakka hverjum? Jú, íslensku sauðkindinni. Ég veit ekki með ykkur en ég bíð spenntur eftir sömu tuggunni á árinu 2017.

Ferðamenn halda áfram að sækja okkur heim líkt og enginn sé morgundagurinn. Ómetanlegar náttúruperlur eiga í vök að verjast vegna ágangs ferðamanna og vegakerfið er farið að láta deigann síga. Eða slitlagið. Verslunareigendur gleðjast og peningarnir streyma í Lundabúðarkassana í stríðum straumum. Til að þetta geti allt gengið upp kaupum við Íslendingar ragettur og skottertur í massavís nú um áramót til að Björgunarsveitir geti fjármagnað starfsemi sína – sem gengur í sífellt meira mæli út á að bjarga ferðamönnum úr hverri stórkostlegri lífshættunni og mannrauninni á fætur annarri. Svona viljum við hafa þetta.

Árið hefur ekki bara einkennst af ferðamönnum heldur einnig samfélagsmiðlum og veraldarvefsatburðum ýmiskonar. Á fasbókinni hafa krúttsprengjur, krúttmolar, krúttkögglar, prinsessur, demantar, snillingar, æðibínur, dásemdir og dúllur ýmiskonar verið afar áberandi þannig að stundum hefur keyrt úr hófi fram. Svo má ekki gleyma Pokémon, en veiðar á honum voru eftirminnilega leyfðar á árinu til að vega upp á móti afar naumt skömmtuðu rjúpnaveiðitímabili. Þeir sem ætla að bjóða upp á léttgrillaðan Pokémon með snjallsímasósu á veisluborðinu í kvöld, verði ykkur að góðu.

Góðir Íslendingar, þegar við lítum yfir sviðið, horfum til baka, síðan fram og svo aftur til baka sjáum við það best sjálf hversu öfundsverð við erum af svo ótal mörgum hlutum. Ég man bara ekki alveg í svipinn hvaða hlutir þetta eru. Nema auðvitað sauðkindin, en það hefur reyndar áður komið fram.

Aftur koma áramót
og enn er staðan býsna snúin
kannski er það sárabót
að þessi hugvekja er búin.

Að endingu óska ég ykkur öllum góðs gamlárskvölds, árs og friðar, með von um áframhaldandi breiða skírskotun, upplýst samtöl, traust bakland og uppbyggilegan málefnagrundvöll á komandi ári.

Stéttin framan við Bessastaði
31. desember 2016
Einar Okkar Hafliðason

Tilvitnun dagsins:
Allir: SPRENGJA!!!

2 thoughts on “Ár við orðamót”

  1. Ég var farinn að hafa áhyggjur af íslensku sauðkindinni þegar ég var kominn ágætlega langt með lesturinn en svo loksins kom hún, bjargvætturinn, mér til mikillar gleði.

    Takk annars fyrir skrifin á árinu 2016 og megir þú eignast þúsund fylgjendur á Twitter.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *