Orðin ögn meira pirruð en síðast

Kærkomnu lesendur.

Skilgreiningin á því að eitthvað falli í grýttan jarðveg? Jú, það er þegar Einar Haf skrifar bloggfærslu og birtir opinberlega og það sem gerist svo í beinu framhaldi. Vitið þið bara til. Það mun án efa gerast núna líka. Hefði þessi inngangur ekki mátt vera aðeins lengri? Æi ég veit það ekki.

Nú hefur það komið upp úr kafinu, dúrnum og kjörkössunum að Donald Trump er næsti forseti Bandaríkjanna. Eftirnafn hans rímar við prump – og eflaust er það ekki af ástæðulausu. Ég ætla ekki að tjá mig neitt frekar um það hvort Donald sé hrokafull karlremba sem hlakkar til þess eins að komast í kjarnorkuvopnabúrið…eður ei. Það eina sem ég veit er að maðurinn er ekki bara með appelsínuhúð heldur er hann bókstaflega appelsínugulur á litinn. Svo hefur hann gaman af að horfa á og dæma konur (ekki feitar konur samt) og grípa í …… spil.

Nú er 10. nóvember og enn töluvert langt til jóla. Jólalandið í Blómaval í Skútuvogi er samt búið að vera opið í fjórar helgar nú um komandi helgi. Og þá verða ennþá fimm helgar fram að jólum. Auðvitað lá þessi ósköpin öll á að opna Jólalandið. Eftirspurnin var örugglega gríðarleg. Það virðist þó engu skipta fyrir öll jólafólin og skreytingavitleysingana sem eru komnir á kreik nú þegar og keppast við að útþynna hátíðleika jólanna með því að stilla upp glingri og setja seríurnar í samband strax. Eins og þegar ég í ógáti rak nefið inn á Glerártorg í dag og gekk þar nánast í flasið á fullskreyttu jólatré…i. Svei því öllu saman. Það má ekki bíða með þetta í allavega hálfan mánuð í viðbót? Neeiii, auðvitað ekki. Meira að segja mjólkurfernurnar og kókið er komið með áprentaða jólasveina á sig. Þið vitið, sömu jólasveina og byrja að koma til byggða eftir rúman mánuð. Það lá nú aldeilis á að koma þeim á mjólkurfernurnar. Froðuheilar.

Enn hefur ekki tekist að mynda ríkisstjórn hér á landi þrátt fyrir alls kyns samræður manna og kvenna á milli. Vantar myndavél? Til að mynda þarf myndavél til að mynda stjórn. Nja….veit ekki. Kannski er þetta meira þannig að þessi vill ekki vinna með hinum af því að hann er leiðinlegur, þau þarna eru of mikið púkó til að við getum unnið með þeim, þessi er frekur og hinn er vitleysingur. Einhver myndi kalla þetta krísu en ég kýs að kalla þetta „að kanna baklandið“. Ég hef oft reynt að kanna baklandið, bæði mitt og annarra, en lítið orðið ágengt. Þess má til gamans geta að ég get unnið á víðum grundvelli þvert á pólítískar línur og hef afar breiða skírskotun.

En hvað með vinnumarkaðinn? Nú eru allir grunnskólakennarar brjálaðir út af kjararáði. Eða kjaraóráði? Og sjómenn farnir í verkfall. Þingmenn eru margir hverjir brjálaðir út af óumbeðinni launahækkun kjararáðs. Tala nú ekki um forsetann. Og hvað er kjararáð með í laun? Hver ákveður laun kjararáðs? Er kjararáð á prósentum? Er fullt starf að vera í kjararáði? Skiptir engu. Ótengt þessu má nefna að líkjararáð hefur valið Drambuie líkjör besta líkjör ársins 2016.

Óþefur liggur í loftinu
líkar mér ei þetta prump
gæsin er gripin á fluginu
grípur í konurnar Trump.

Kaninn í mylsnu er klofinn
kaus hann svo yfir sig klump
Í vestri er draumurinn dofinn
grípur í dömurnar Trump.

Erfið er staðan og snúin
því forsetinn minnir á strump
bráðum er dásemdin búin
brátt nálgast klofið hann Trump.

Það er rétt að ítreka það sem fram kom í síðustu bloggfærslu að jólin þín byrja ekki í IKEA, þau byrja þegar kviknar í jólageitinni fyrir utan IKEA. Það er ekki nóg að reyna að kveikja í geitinni, hún þarf að brenna til kaldra kola. Koma svo, næst heppnast þetta.

Einar harðskreyttur….eða harðskeyttur.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Trump?

2 thoughts on “Orðin ögn meira pirruð en síðast”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *