Sótugu lesendur.
Það þarf kannski ekkert að fjölyrða um hvað það var sem var „kveikjan“ að þessari bloggfærslu. Þeir sem fylgst hafa með þjóðmálaumræðu liðinna daga ættu að vita það mæta vel. Stjórnarmyndunarviðræðurnar? Nei ekki alveg. Hótanir og mótmæli grunnskólakennara? Nei aldeilis ekki. Donald Trump þá? Nei það er nú bara tittlingaskítur. Ég er auðvitað að tala um jólageit IKEA. Eða það sem eftir er af henni.
Aðdragandi þessa máls er býsna langur. Hvernig gat svo sem annað verið, geitin var komin upp seinni partinn í október ásamt öllu hinu IKEA jólaskrautinu. Ekki misskilja mig, fjöldi fólks hefur í gegnum tíðina yljað sér við þessa geit – mis bókstaflega. Hálmgeitin, holdgervingur snemmkominna jóla og græðgishyggju nútímans, hefur lengi verið þyrn í augum ýmissa, af ýmsum ástæðum. Ég nefni engin nöfn, en vissulega hafði ég ýjað að því fyrr í þessum mánuði að jólin þín byrjuðu ekki í IKEA heldur þegar kviknað hefði í IKEA geitinni. Þar var ég einungis að vísa til þeirrar staðreyndar að undanfarin ár hefur verið kveikt í geitinni með tilþrifum – og þegar enginn hefur viljað kveikja í henni þá hefur hún kveikt í sér sjálf. Það er alls ekkert grunsamlegt við það, nei nei. Það er eins og þetta liggi í loftinu á hverju einasta ári.
Á dögunum reyndu einhverjir viðvaningar að kveikja í geitinni, en kveiktu næstum í sjálfum sér fyrir vikið. Það þurfti því að bæta um betur og það tókst síðastliðinn mánudagsmorgun. Þegar fréttirnar bárust um heimsbyggðina ráku einhverjir augun í það að ég hafði skroppið til Reykjavíkur þá um morguninn – og augljóslega lá ég undir sterkum grun í ljósi fyrri ummæla um ágæti þessa risastóra októberjólaskrauts. Planið var nokkuð skothelt. Ég átti flugmiða við annan mann þá um morguninn, en í stað þess að fara sjálfir gætum við sent staðgengla í flugið og keyrt á bílaleigubíl suður þá um nóttina. Þar með væri komin fjarvistarsönnun og ekki hægt að bendla mig við brunann. Var þetta þá það sem gerðist? Það mun aldrei neinn vita nema ég, samferðamaður minn og svo öryggisvörðurinn í IKEA. En planið gæti allavega gengið upp. Og hver veit hvað getur gerst þegar það er ofurmáni. Ofurmánadagur var einmitt á mánudaginn, ofurmánudaginn. Eða eitthvað svoleiðis.
En hvers vegna er þessi geit svona mikið stórmál? Jú, hún er tákngervingur hins illa sænska verslunarveldis sem heilaþvegið hefur íslenska þjóð um árabil. Það þarf enginn að versla í IKEA frekar en einhvers staðar annarsstaðar. Samt er það svo að fólk hópast hundruðum þúsunda saman í þetta völundarhús eldhúsinnréttinga og kommóðuskápa og unnir sér ekki hvíldar fyrr en búið er að versla eitthvað sem ekki var endilega þörf á að kaupa. Það er samt ekki endilega gott að kveikt sé í geitinni, það þýðir bara ókeypis auglýsingu fyrir IKEA og brunaútsöluna sem þar er…allavega meðan á brunanum stendur.
Ég komst aftur til míns heima frá Reykjavík þrátt fyrir gífurlega stranga öryggisgæslu. Það gekk að vísu ekki þrautalaust, síðasta flugi þriðjudagsins var aflýst – vegna veðurs sögðu þeir en ég veit betur. Flugvélin var sennilega kyrrsett svo að lögreglumennirnir sem voru á flugvellinum gætu leitað sönnunargagna. Eftir að hafa farið huldu höfði og sett upp gervinef og gerviskegg komst ég gegnum öryggisgæsluna á flugvellinum morguninn eftir og gat flogið heim á ný. Vonandi verða eftirmálar ferðarinnar ekki svæsnari en þetta, nóg er það nú samt.
Ég held svei mér þá að það sé ekkert annað merkilegt að frétta. Einhver er að tala um stjórnarkreppu á Íslandi – en við hljótum að vera í góðum málum meðan Sigga Beinteins og Grétar Örvars nenna að halda spilamennskunni áfram. Það er varla stjórnarkreppa á meðan. Einar, í alvöru? Hjálpi mér allir heilagir…..
Hneyksli vikunnar hlýtur að vera þetta hérna. Íslendingar hljóta að taka málstað sinnar konu í þessu máli – rétt eins og um daginn þegar þjóðin sameinaðist um að styðja feitu fegurðardrottninguna í baráttu sinni gegn vondu fegurðarsamkeppnishöldurunum. Ef íslensk þjóð heldur áfram að standa saman í erfiðum málum komumst við gegnum ólgusjóinn í sameiningu.
Komdu unga ástin mín
drífðu þig á fætur
IKEA geymir gullin þín,
kommóður og húsgögn fín.
Við megum ekki versla um miðjar nætur.
Það er margt sem myrkrið veit
minn er hugur hlessa.
Oft ég tækifæri leit,
til að brenna jólageit.
að morgni stóð eftir biksvört kolaklessa.
Þess má til gamans geta að stjórnarmyndunarviðræður Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar runnu út í sandinn vegna ágreinings um hvort veita ætti IKEA ríkisábyrgð eða ekki til að standa straum af kostnaðinum við að reisa nýja geit fyrir jól.
Einar útbrunninn.
Tilvitnun dagsins
Allir: Kolgeit? Watergeit? Gareth Southgeit? Nei, jólageit.
Velkominn norður Einar. Gott að þér hafi verið sleppt lausum að lokum. Verður örugglega ekki mikið mál fyrir þig að greiða sektina.