Orðin á margra vikna fresti

Sjaldséðu lesendur.

Nú þegar Einar Haf er loksins endanlega og í síðasta sinn hættur að blogga er óhætt að líta yfir farinn veg og minnast þess með hryllingi þegar málþóf hans var og hét – og hvernig þófið angraði lesendur daginn út og daginn inn. Sem betur fer eru þeir dagar nú liðnir.

Einari Haf var gjarnan tíðrætt um störf Alþingis í bloggfærslum sínum. Það kann að hljóma afkáralega enda hefur fólk almennt engan áhuga á því sem er að gerast á Alþingi. Þetta færir enn frekari sönnur á það að Einar Haf var ekki að blogga til að gleðja lesendur heldur til að svala einhverri annarlegri fíkn sem hrjáði hann. Þingheimur kom einmitt saman að nýju í gær eftir sumarleyfi og nú leikur allt í lyndi á ný – enginn er fúll og engin mál eru til að rífast og skammast út af. Allir þingmennirnir í skóginum eiga að vera vinir, samkvæmt því sem fram kemur í þingskaparlögum og lögum úr sýningunni Dýrin í Hásaskógi. Hásaskógi, af því allir höfðu talað sig hása. Þið skiljið. Ekki.

Einar Haf ritaði stundum um landsins gagn og nauðsynjar í bloggfærslum sínum, eins ótrúlega og það kann að hljóma. Sveitastörf voru honum ofarlega í huga og raunar var hvers konar skepnuskapur honum að skapi – en ekki lesendum auðvitað. Aumingja Einar, gott að hann hefur bundið enda á þessar þjáningar.

Einar Haf átti það nú til að vera lúmskur. Oft gat hann skrifað heilu efnisgreinarnar um það eitt að hann væri að skrifa langan texta um ekki neitt sem þó tæki heila efnisgrein. Ég tala nú ekki um þegar hann var farinn að lýsa því í löngu máli hvernig hann fór að því að skrifa langan texta um ekki neitt og tók undir það heilu efnisgreinarnar. Eins gott að þessir tímar séu liðnir.

Einar Haf velti stundum upp hinum ýmsu hneykslismálum sem voru til umræðu í þjóðfélaginu á hverjum tíma, en ef honum tókst ekki að finna nein hneykslismál þá bjó hann þau bara til sjálfur. Það var auðvitað hneyksli í sjálfu sér. Einar Haf gat býsnast yfir hinum ótrúlegustu hlutum, sérstaklega blöskraði honum þó þegar jólaskrautið og jólaundirbúningurinn fóru á fullt í byrjun nóvember. Guði sé lof að þessi forheimski fýlupoki sé búinn að pakka saman og hættur að angra almenna lesendur.

Það er reyndar eitt sem ég er farinn að velta fyrir mér núna og þið kannski líka. Er Einar Haf ekki örugglega hættur að blogga? Ég meina, hann hætti í júlí var það ekki? Er kannski eitthvað bogið við þetta? Hvernig vitum við að hann sé hættur. Með því auðvitað að fara á bloggsíðuna hans og skoða hvenær síðasta færsla var birt. Hún var birt bara núna rétt áðan. Það þýðir þá að ………… Ó NEI!!!!

Sólin baðar stokk og stein
strá ég jórtra á hlaðinu
Sigurlín er orðin ein
Aðalsteinn drukknaði í baðinu.

Hneyksli vikunnar er auðvitað sú staðreynd að Umf. Þorsteinn Svörfuður er ekki talinn upp á þessum lista. Það gengur bara betur næst.

Einar hættur við að hætta við að hætta við að hætta við að koma til baka eftir að hafa hætt.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Æi góði besti, hættu þessu!

One thought on “Orðin á margra vikna fresti”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *