Undanskotnu lesendur.
Það er við hæfi nú að kveldi Uppstigningardags að horfa ögn til andlegra málefna og staldra við í amstri hversdagsins. Það er rétt að minnast himnafarar Jesú Krists, þessi dagur er jú til þess gerður. Eins og þjóðfélagsástandið var á tímum Jesús var himnaför hans skiljanleg. Væri hann hér á meðal vor í dag myndi hann eflaust gera slíkt hið sama, forða sér burt úr vitleysunni og stíga upp til himna. Að þessu leyti hefur ekkert breyst.
Óli segir nei nei nei, nei nei segir Óli.
Nú er það allt í einu orðið vítavert að tengdaforeldrar manns skuli eiga peninga einhvers staðar á einhverri eyju suður í aflandshafi. Afsakið meðan ég æli. Syndir feðranna eru þeirra syndir, ekki okkar. Ég er ekki að tala um mig, enda á ég enga tengdaforeldra svo ég viti, heldur er ég að tala um Þormóð Ugluspegilsson á Framnesvegi 16. Honum er ekki lengur sætt sem forseta húsfélagsins vegna þess að tengdaforeldrar hans eiga peninga á Tortóla eyjum. Skamm Þormóður.
Nú stendur yfir Öldunkamót í blaki, þar sem blakkempur hvaðanæva af landinu keppast við að tæma hvern öldunkinn á fætur öðrum. Ekki ósvipað Pollamótinu í fótbolta þegar fótboltakempur hvaðanæva af landinu keppast við að tæma hvern pollann á fætur öðrum. Hmm…eitthvað í þessu gengur ekki upp. Veit samt ekki hvað.
Óli segir nei nei nei, nei nei segir Óli.
Nýjasta hneykslið í langri röð hneykslismála er hið árlega veðurhneyksli sem samtök veðurfræðinga standa fyrir. Frá og með sumardeginum fyrsta og langt fram í maí spá þeir engu nema norðanátt og kulda – og alltaf rætast spárnar. Ungir Sjálfstæðismenn hafa ítrekað lagt til að Veðurstofa Íslands verði einkavædd, í þeirri von að spárnar og þar með veðrið batni í kjölfarið. Gangi þeim vel með það.
Bresku Jómfrúareyjar eru þekktar fyrir blómlegt atvinnulíf og öflugan fyrirtækjarekstur. Eyjaskeggjar hafa brotist til metorða úr sárri fátækt með tveimur höndum tómum – þeir hafa sannkallað víkingablóð í æðum. Þeir virðast einnig hafa notið fjárhagslegs stuðnings íslenskra auðmanna. Þetta hefur komið betur og betur í ljós eftir því sem skjölin hafa lekið og lekið frá Panamaeyjum. Enn á ný sannast þá hið fornkveðna að þegar smáþjóðir eru í vanda staddar koma Íslendingar til skjalanna og redda málunum. Alveg sama hvort það bitnar á innviðum samfélagsins okkar eða ekki. Tortóla – öruggur staður til að vera á.
Óli segir nei nei nei, nei nei segir Óli.
Auðkýfingurinn Donald Trump hefur hlotið mikið brautargengi í forkosningum Repúblikana í Bandaríkjunum, vegna komandi forsetakosninga. Ekki líst mér á Repúblikuna. Það eru Repúblikur á lofti. Ég vildi bara koma þessu á framfæri.
Evrópusöngvakeppnisfararnir okkar eru löngu mættir til Stokkhólms til að æfa sig fyrir Evrópusöngvakeppnina, sem mun tröllríða allri línulegri dagskrá í næstu viku. Gréta Salóme er í forsvari fyrir okkar hönd. Í íslensku söngvakeppninni heyrði hún raddir á íslensku en nú á alþjóðavísu heyrir hún raddir á engilsaxnesku. Í fyrra söng hún María okkar af sér rassgatið og það stefnir allt í að hún Gréta muni gera það sama í ár. Við fylgjumst spennt með.
Fokið er í flestöll skjól
framinn býður skaða
eins og álfur út úr hól
breyti ég í spaða
Þess má til gamans geta að þó svo að frændi minn hafi átt bankareikning á Tortóla eyjum og systir vinkonu minnar setið í stjórn skúffufyrirtækis á Ceycille eyjum ætla ég ekki að segja af mér. Hvað þá að biðjast afsökunar.
Einar þaulsetinn.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Rass!!!
Get vart beðið eftir Pollamótinu.