Kæru lesendur.
Gekk ég yfir sjó og land og hitti þar einn auðkýfing. Sagði svo og spurði svo hvar átt þú heima? Ég á heima á Aflandi, Aflandi, Aflandi. Ég á heima á Aflandi, Aflandinu góða.
Það er nefnilega það. Vegna óvissuástands í þjóðfélaginu ákváðu hérlend og erlend yfirvöld að láta loka öllum vafasömum vefsíðum – enda fyrir löngu ljóst að tjáningarfrelsið er komið út fyrir öll velsæmismörk og rúmlega það. Það er ein af aðalástæðum fyrir því að þú flýgur betur með Icelandair. Nei ég meina, það er ein af aðalástæðunum fyrir því að Einar Haf hefur ekkert bloggað í fleiri vikur. Reyndar tókst honum að blogga einu sinni um miðjan apríl en sú færsla var sem betur fer tekin út af internetinu jafn harðan þar sem hún þótti afar gróf og særði blygðunarkennd margra. Margra sem lásu ekki einu sinni færsluna.
Í dag var haldinn stofnfundur félags fyrrverandi forsetaframbjóðenda. Mikið fjölmenni var á stofnfundinum og loft lævi blandið. Í þessu nýja félagi er fólk sem á um sárt að binda um þessar mundir í ljósi þess að núverandi forseti ákvað að bjóða sig fram aftur og aftur fram, fram og aftur. Hefur þetta haft í för með sér gríðarmikið tekjutap fyrir þetta fólk, sem sumt hvert hafði þegar eytt stórfé í auglýsingar og kynningarbæklinga. Gera má ráð fyrir að fjölgi enn í félaginu þegar kemur fram í maí – og svo verður loks stofnuð deild innan samtakanna 25. júní fyrir þá sem hafa í raun og sann boðið sig fram en ekki náð kjöri. Stöndum saman og hjálpum þessu fólki.
Óvissuástandið í þjóðfélaginu hefur oft verið mikið en aldrei þó eins gríðarlega mikið og undanfarið. Á tímabili vissi ég ekki hvaða ríkisstjórn væri við völd einu sinni. Ég vissi heldur ekki hver væri handhafi forsetavalds né heldur hversu margir væru í framboði til forseta. Ég vissi ekki hvort Andri Snær væri enn á listamannalaunum. Ég vissi ekki hvernig færi fyrir gjaldeyrishöftunum og ég vissi heldur ekki hvernig veðrið yrði á morgun. Ég vissi heldur ekki hvort ég myndi nokkurn tímann ná að skrá mig aftur inn á bloggsíðu Einars Haf. Á svona óvissutímum er gott að hafa einhvern fastan punkt, sem hægt er að stóla á og reikna með að standi eins og klettur í brimróti nútímans. Um hvað er ég að tala? Auðvitað Magga á Texasborgurum.
Sjónvarpið sýnir um þessar mundir raunveruleikadramað Panamaskjölin, eða „Panamapapers“ eins og það heitir í meðförum erlendra blaðamanna. Nánast daglega gerist eitthvað nýtt og spennandi í þessari sápuóperu og yfirleitt enda allir þættir á því að einhver segi af sér. Í upphafi var gefið út að um 600 leikarar tækju þátt en þeim hefur fækkað eitthvað eftir því sem á hefur liðið.
Minnisleysi er hrikalegt fyrir þá sem í því lenda. Ég minnist þess að vísu ekki að hafa nokkurn tímann þurft að glíma við það vandamál, en það eru ekki allir svo heppnir. Fjölmargir fjármagnseigendur virðast til dæmis hafa gleymt því með öllu að þeir hafi á sínum tíma stofnað bankareikninga erlendis og stundað viðskipti, jafnvel í einhverjum löndum í órafjarlægð frá Íslandi þar sem skattar tíðkast ekki. Svo hafa þeir stundum gleymt að gefa þessar eignir og tekjur af eignunum upp til skatts á Íslandi. Ég man þá tíð……ekki baun.
Ný rannsókn sýnir að átröskun er mun algengari meðal íslenskra íþróttamanna heldur en meðal erlendra íþróttamanna. Skiptir þá engu hvort um ræðir dvergakast, skák, fitness, bobb, hnit, hrútaþukl, Brús eða einhverja aðra íþróttagrein. Þessar niðurstöður koma rannsakendum í opna skjöldu. Ekki skrítið. Ég ætla ekki að éta neitt ofan í mig af því sem ég hef áður sagt um útlitsdýrkun og annað í þeim dúr, ég ætti það einfaldlega á hættu að æla því – samkvæmt rannsókninni.
Nú líður senn að sauðburði í Svarfaðardal og víðar. Á nokkrum stöðum er burður meira að segja hafinn. Það er auðvitað alveg dæmigert að einmitt þá skiptir veðurguðinn um gír, slekkur á sólinni og dembir á mann dimmum hríðaréljum og frostkala. Það var nú ekki það sem hnýpin sál á hjara veraldar þurfti á að halda. Haldið þið að væri munur að vera núna á Panama í 30 stiga hita og sauðburður að detta í gang. Allar kindurnar búnar að klæða sig úr ullinni og komnar á nærfötin. Já það væri nú eitthvað annað. Það sem heldur manni gangandi er vonin um að bráðum komi betri tíð með blóm í haga, sæla langa sumardaga, kjöt og smjör í sérhvern maga og biksvart kaffi í grænum Braga. Ja, eða svoleiðis.
Á Panama skulum við dvelja um skeið
og skúbba um reikninga vel falda
Þjóðin á þrasinu orðin er leið
og kommentakerfin svo þrútin og reið
ég höfðinu sting inn í skel kalda
Lögfræðistofurnar leika sér við
að liðka til fyrir þá Pétur og Pál
erlendir peningar setj’allt á hlið
og þjóðþrifamálin þau öll fara á bið
úr ausunni sýp ég af áfergju kál
Þó ég hafi ekki gert neitt rangt í þessari bloggfærslu, hvað þá gerst brotlegur við lög og siðareglur, ætla ég samt að stíga til hliðar svo hægt sé að byggja upp traust á nýjan leik. Bara spurning hvað ég tek mörg skref til hliðar. Hliðar saman hliðar. Ég áskil mér þó rétt til að endurskoða þá ákvörðun mína um að bjóða mig að nýju fram til forseta bloggsíðu Einars Haf – enda sé það vilji lesenda. Ég heiti líka Einar Haf, kann lykilorðið inn á bloggsíðuna og er þar af leiðandi lang hæfasti aðilinn til að sinna embættinu.
Þess má til gamans geta að Kim Kardashian og Kanye West létu rýma Bláa lónið á dögunum svo þau gætu skoðað bloggsíðu Einars Haf í friði og ró.
Einar ekki viss.
Tilvitnun dagsins:
Allir: Ég man það ekki.
Lengi lifi forseti voru Einar Haf.
Hipp hipp húrra! Hipp hipp húrra!