Páskalegu lesendur.
Já það hefði ég nú aldeilis haldið. Einar Haf, öðrum orðum ég, læt dræmar undirtektir og hríðfallandi eftirspurn eftir bloggfærslum sem vind um eyru þjóta og held áfram að tala í tómið. Maður er gráti næst.
Æi hættu þessu grenjuskjóða. Farðu frekar og troddu páskaeggjum í grímuna á þér, feitilíus. Nú er allt svoleiðis vaðandi í páskaeggjum að það hálfa væri nóg. Og þá er ég ekki að tala um veganegg. Hvaðan koma öll þessi egg? Hver verpti öllum þessum eggjum? Og hver sá um að setja þau í plast? Páskahérinn verpti eggjunum og það voru þau Nói Síríus, Linda og Góa sem sáu um plöstunina. Við stöndum í þakkarskuld við þessi fyrirtæki, án þeirra væru engir páskar.
Heyrðu mig nú trúleysingi. Væri ekki frekar að við þökkuðum Jesú Kristi og upprisu hans. Þjáningar Krists á krossinum urðu til þess að í dag getur venjulegt fólk tekið sér nokkurra daga samfellt frí í mars eða apríl og farið í sumarbústað, á skíði eða jafnvel til útlanda á hverju ári. Það er nú aldeilis þakkarvert. Og hvernig sýnum við þetta þakklæti í verki? Hvernig heldur fólk upp á þessa stærstu hátíð kirkjuársins? Með því að mæta ekki í messu á Páskunum og skrá sig úr þjóðkirkjunni. Auðvitað. Auðvitað fá trúleysingjarnir líka frí á páskunum. Þeir trúa ekki á Guð almáttugan en þeir trúa á frí og hið ljúfa líf eftir sem áður. Það er eitthvað verulega rotið við þetta allt saman. Ég finn hvernig ég er að verða brjálaður.
Forsetaframbjóðendur halda áfram að spretta undan feldinum eins og gorkúlur. Óhætt er að segja að flóra frambjóðenda sé að verða umfangsmeiri en hinn almenni kjósandi ræður við og kærir sig um. Mikill fjöldi forsetaframbjóðenda er ekki bara kjánalegur heldur einnig kostnaðarsamur fyrir þjóðarbúið. Og má þjóðarbúið þó ekki við því. Fyrir það fyrsta þurfa þessir forsetaframbjóðendur 1.500 meðmælendur hver eigi þeir að geta boðið sig fram. Gætum við lent í því að þurfa að flytja inn kjósendur frá útlöndum til þess að allt þetta fólk fái að bjóða sig fram? Ég velti því fyrir mér. Síðan þarf óhjákvæmilega að stækka kjörseðlana til að koma nöfnum allra frambjóðenda fyrir, jafnvel upp í stærð A3 haldi þessi þróun áfram. Þá þarf ennfremur að stækka kjörkassana og það kostar sitt. Talning atkvæða verður umfangsmeiri og kosningavakan lengist margfalt, með tilheyrandi kostnaði fyrir Ríkissjónvarpið. Kosningapartí frambjóðenda verða mun fleiri en venjulega þannig að það þarf fleiri fréttamenn á vakt til að geta heimsótt þau öll og flutt fréttir af frambjóðendum og fylgismönnum þeirra.
Líkt og með hina trúuðu og páskafríið þá er eitthvað rotið við þetta forsetabrölt einnig. Hér eru auglýstar stöður í heilbrigðisgeiranum vikum saman og enginn sækir um – en svo er auglýst eftir forseta lýðveldisins og þá hrúgast inn umsóknir. Hvernig fær fólk það út að það sé auðveldara starf? Tja, jú kannski þegar það er hugsað út í það. Það eru miklu meiri hæfniskröfur gerðar í heilbrigðisgeiranum heldur en í forsetabransanum en samt eru launin margfalt hærri í forsetabransanum. Kannski er það skiljanlegt. Við viljum ekki að hvaða api sem er geti sótt um stöðu læknis en við myndum lifa það af sama hvaða api yrði kosinn forseti. Hver myndi til dæmis vilja fara í uppskurð til Dr. Ástþórs Magnússonar? Það er þó skárra að hafa manninn í öruggu umhverfi á Bessastöðum.
Og að lokum; hér eru nokkrir málshættir sem ég fékk úr páskaeggjum dagsins. Það er rétt, ég keypti glás af eggjum bara til að geta fengið fleiri málshætti. Ég opna eggin, næ málshættinum út og hendi svo restinni. Andlegt fóður nægir mér……
Af aflandsfélögunum skuluð þið þekkja þá.
Sjaldan er einn kröfuhafinn stakur.
Enginn verður óbarinn forsætisráðherra.
Hver hefur sína auðugu eiginkonu að draga.
Sá vægir sem Wintris hefur meira.
Ég tók í morgun þátt í umfangsmikilli páskaeggjaleit, venju samkvæmt. Ég fann engin páskaegg en ég fann hins vegar nokkra módelfitnesskeppendur – sem ég hélt í ógáti að væru páskaegg. Það runnu á mig tvær grímur þegar ég fór að kafa ofan í málið en fann enga málshætti hvernig sem ég reyndi að grafa mig inn gegnum götin aftan á meintum páskaeggjum. Það gengur vonandi bara betur næst.
Einar í upprisu.
Tilvitnun dagsins:
Rodney Dangerfield: During sex, my wife always wants to talk to me. Just the other night she called me from a hotel.
Ég varð eilítið brjálaður með þér Einar, slíkur er máttur pennans…. lyklaborðsins.
Mikið er ég glaður að heyra/lesa þetta Gunnar Þórir.