Á bak og burt-legu lesendur.
Sumir, eða nánar til tekið einn, hefur spurt mig hvernig standi á því að engin bloggfærsla hafi litið dagsins ljós nú í tæpar tvær vikur hér á bloggsíðu sumra landsmanna. Skýringarnar á þessu ástandi eru margþættar. Þessi bloggfærsla er tileinkuð fjarveru Einars Haf undanfarna daga og mögulegum skýringum á þessari fjarveru.
Skýring á fjarveru nr. 1: Ég tók sprengidaginn full bókstaflega og sprakk á limminu. Sprengjutætlurnar brunnu svo daginn eftir og urðu að ösku. Á öskudaginn. Þvílík óheppni.
Skýring á fjarveru nr. 2: Ríkisútvarpið setti mig í straff þannig að ég myndi ekki kjafta frá því hver eða hverjir séu morðingjarnir í Ófærð. Ég skil auðvitað ekkert í þessari viðkvæmni hins opinbera, enda hefur það legið fyrir í margar vikur hver eða hverjir eiga í hlut. Ég meina, þetta stendur jú allt í dagbók lögreglunnar á Siglufirði.
Skýring á fjarveru nr. 3: Ég ákvað að skreppa í Jökulsárlón og bregða mér þar í jakahlaup og ísskoðun ásamt fleiri grandarlausum ferðamönnum. Fljótlega kárnaði gamanið þegar ísjakarnir losnuðu frá landi og ráku út á lónið. Þar með breyttist ég í Einar Hafísjaka. Nema þetta var lón en ekki haf. Kemur. Borgarísjaki eða borgar ísjaki? Ekki náðist í Borgar Ísjaka við gerð þessarar bloggfærslu til að athuga málið.
Skýring á fjarveru nr. 4: Útlendingastofnun komst að því að á bak við bloggsíðu Einars Haf væri umtalsverður fjöldi erlends vinnuafls sem sæi um efnisöflun og skrif á síðuna. Þetta sama vinnuafl var ekki með skráð landvistarleyfi hér á landi og var því umsvifalaust flogið úr landi í skjóli nætur. Einar Haf þurfti því að fara að hugsa og skrifa sjálfur – og það tekur sinn tíma.
Skýring á fjarveru nr. 5: Ég misskildi bolludaginn og fékk mér áfenga bollu – borðaði ávextina í botninum á bolluskálinni og hrundi hressilega í það. Ég hef verið á herðablöðunum, sneplunum og rassgatinu allar götur síðan.
Skýring á fjaveru nr. 6: Ég fór í feluleik en fann engan til að leika við þannig að ég fór bara einn í feluleik og enginn er að leita að mér. Og ég er enn í felum.
Skýring á fjarveru nr. 7: Ég gerði framvirkan starfslokasamning við sjálfan mig, samningurinn var fjármagnaður með veði í næstu 120 bloggfærslum á bloggsíðu Einars Haf. Ég lofaði því að setjast í helgan stein og láta ekki sjá mig á opinberum vettvangi gegn himinhárri fyrirframgreiðslu.
Skýring á fjarveru nr. 8: Ég var numinn á brott af geimverum. HJÁLP!!!
Skýring á fjarveru nr. 9: Dabbi Grensás hitti mig á förnum vegi og það kom í ljós að hann hafði lesið allar bloggfærslurnar mínar gegnum tíðina. Ég þarf ekki að segja meira…
Allt eru þetta frekar trúverðugar skýringar. Lesendur, eða lesandi, verða, eða verður, að fá að velkjast aðeins lengur í vafa um hver þessara skýringa er rétt. Hið sanna mun koma í ljós á sunnudagskvöldið. Eða hvað? Múhaha.
Horfinn er Einar, hlaupinn á brott
hausinn er rifinn og tættur
lesendur setja upp velsældarglott
vonandi er spéfuglinn hættur.
Í næstu bloggfærslu verður fjallað mjög ítarlega um endurkomu Einars Haf á ritvöllinn eftir óútskýrða fjarveru. Einar Haf hefur annars hafnað því alfarið að bloggfærslurnar séu að verða sífellt sjálfhverfari en áður. Bara rugl.
Einar verandi fjar.
Tilvitnun dagsins:
Einar Haf: Loksins er vitnað í mig á þessari bloggsíðu.
Þarna eru níu ástæður sem allar eru frekar líklegar. Ég hef eiginlega búist við að ástæða nr. 9 yrði einhvern tímann að veruleika ef viðkomandi myndi aðeins google-a sjálfan sig.