Orðin bolluð

Bollulegu lesendur.

Já verði ykkur bollurnar að góðu, bollurnar ykkar. Nú er rjóminn á kinnunum, glassúrinn í munnvikunum og sultan í efri gómnum. Allt eins og það á að vera. Ét, drekk og ver glaðr, því svo hefst langafastan, eða sjöviknafastan, á miðvikudaginn og mun hún standa alveg fram að páskum. Það er ekki nóg með að þreyja þurfi þorrann, það þarf líka að fasta föstuna. Fast.

Hmm, þetta var furðulegur inngangur. En það er kannski ekki að undra, sykurmagnið í blóði undirritaðs er það hátt að það kemur ekkert vitrænt þaðan. Á morgun verður það svo saltið sem tekur öll völdin og loks verður það askan sem tryllir mann og annan á miðvikudaginn. Ég er einmitt bollulegur í dag, verð í spreng á morgun og svo öskuillur á miðvikudaginn. Tja, eða ekki.

Sumir (vitleysingar) ætla ekki að taka þátt í þessum átdögum eins og bollan ég og meirihluti þjóðarinnar. Þessir sömu vitleysingar borða bara heilsubollur á bolludaginn með geri og kókosrjóma og svo verða þeir fyrir vikið spengilegir á spengidaginn, bévaðir. Síðan afþakka þeir hinir sömu allt gotterí og sætindi á öskudaginn og syngja þess í stað bara fyrir ávexti, grænmeti og gras. Ég hef vitaskuld óbeit á þessu fólki sem hefur slíka sjálfstjórn – en ég hef reyndar þann löst að velgengni annarra veitir mér ekki ánægju heldur fyllir mig hatri og öfund. Það eru jú þeir hvatar sem drífa áfram þessa löngu úr sér gengnu bloggsíðu.

Er eitthvað að frétta annað en bollur, bollan þín? Eiginlega ekki. Atvinnubílstjóri hjá Strætó eyddi nýverið korteri í að skoða bollur í flotta skjástóra snjallsímanum sínum meðan hann keyrði greiðlega frá Menntaskólanum í Hamrahlíð að Hátúni í Reykjavík. Einhver hortitturinn tók atvikið upp á myndband með flotta skjástóra snjallsímanum sínum. Mér finnst fólk óþarflega æst út af þessu almennt séð, bílstjórinn er jú bara mannlegur og þar af leiðandi bolluáhugamaður. Síðan slógust 30 fullorðnir karlmenn blóðugum slagsmálum utan við Skeifuna í Reykjavík á laugardaginn síðasta með bareflum og bolluvöndum. Tilefni slagsmálanna voru bollur þ.e. hvor tegundin væri betri gerbollur eða vatnsdeigsbollur. Ekki tókst að útkljá ágreininginn á staðnum en það verður vonandi gert síðar. Svo má líka nefna að rúmlega 60 þúsund manns hafa skrifað undir áskorun Kára Stefánssonar um að hið opinbera skuli verja hið minnsta 11% af árlegri vergri landsframleiðslu í kaup á rjómabollum – enda muni það stuðla að hagsæld og heilbrigði þjóðarinnar.

Líkamsræktarlúin þjóð
leyfir sér að sukka feitt
Vatnsdeigssulturjómaflóð
getur dimmu í dagsljós breytt.

Hvorki Bjössi Bolla né Arthúr Björgvin Bolla gáfu kost á viðtali, eða rjómabollu, í tengslum við gerð þessarar bloggfærslu.

Einar bolla bolla.

Tilvitnun dagsins:
Allir: Bolla!

One thought on “Orðin bolluð”

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *