Góðu lesendur.
Samkvæmt nýrri rannsókn getur lestur bloggsíðu Einars Haf valdið óstjórnlegum niðurgangi. Þessi rannsókn hefur sem betur fer ekki farið hátt í fjölmiðlum vegna fjölda annarra mála sem komið hafa upp og hafa af einhverjum sökum þótt merkilegri.
Samkvæmt nýrri rannsókn eru konur í gríðarlegum minnihluta þegar kemur að viðmælendum í fjölmiðlum. Og hvað með það? Það er alltaf sama tuðið í þessu kvenfólki. Aldrei mega strákarnir fá að hafa neitt út af fyrir sig. Þær hafa saumaklúbba, 50 gráa skugga, kvenfélög og uppskriftarbækur, nú vilja þær líka fá fjölmiðlaathyglina. Týpískt. Hvernig væri að fá Einar til að rita fáeinar greinar um ójafna stöðu kynjana í fjölmiðlum? Jú eflaust góð hugmynd, nema hvað að Einar er karlrembusvín og myndi án efa níða skóinn af kvenfólkinu blygðunarlaust með dylgjum og útúrsnúningum eins og þessi efnisgrein sýnir fram á – og ekki er á það bætandi.
Samkvæmt nýlegri rannsókn er spilling á Íslandi ein sú minnsta sem fyrirfinnst á byggðu bóli og þó víðar væri leitað. Rannsóknin náði til allra stjórnmálaflokka, ungmennafélaga, trúfélaga, bólfélaga og bloggsíðna. Hmm…nei, líklega náði hún til allra nema stjórnmálaflokka, ungmennafélaga, trúfélaga, bólfélaga og bloggsíðna. Algjörlega ótengt þessu má nefna að önnur rannsókn sýndi fram á að aðeins tæp 10% landsmanna vita hvað orðið „spilling“ þýðir.
Samkvæmt nýrri rannsókn selja kampavínsklúbbar ekki bara kampavín. Þetta kemur auðvitað verulega á óvart.
Samkvæmt nýrri rannsókn mengar hérlend stóriðja stórkostlega mikið meira en flestir aðrir fretarar og mengunarsvelgir landsins. Skýtur stóriðjan sjávarútvegi og flugsamgöngum ref fyrir rass þegar kemur að útblæstri og eyðingu ósonlagsins. Allt stefnir í að árið 2015 verði það hlýjasta í heiminum frá upphafi mælinga. Með áframhaldandi mengun lofthjúpsins er vel mögulegt að okkur takist enn betur til við hlýnun jarðar á árinu 2016. Spennandi.
Samkvæmt nýrri rannsókn eru nýjar rannsóknir ekkert endilega betri eða marktækari heldur en eldri rannsóknir.
Það þurfti ekki nýja rannsókn til að koma Svarfdælingum á kortið, það þurfti bara auða vélageymslu, útihús og utanbæjarmenn til að koma dalnum fagra í fréttirnar. Dæmigert. Auðvitað er þetta bara yfirskin yfir allt aðra og miklu dularfyllri starfsemi sem hefur átt sér stað hér í framdalnum um langt árabil. Ég ætla auðvitað ekki að segja hvaða starfsemi það er, en hún tengist auðvitað þessari bloggsíðu og því hvernig Einar Haf fær „innblástur“.
Úti í skúrnum litla urt
ætla ég að kanna
í huganum ég flýg í burt
í þágu vísindanna.
Ekki var tekið viðtal við neinar konur, eða Einar konur, í tengslum við gerð þessarar bloggfærslu. Það gengur bara betur næst. Áfram stelpur.
Einar sýknaður. Og skakkur. Samkvæmt nýrri rannsókn.
Tilvitnun dagsins:
Homer Simpson: Boy, everyone is stupid except me.
Greinilegt að ýmislegt má rækta í Dalnum góða 🙂
Hélt Mignolet á boltanum allan tímann meðan þú skrifaðir þetta blogg?