Orð á fornum slóðum

Endurlesnu lesendur.

Það er tæplega hægt að halda því fram að endurkoma Einars Haf á vettvang bloggsins sé sú kraftmesta sem sögur fara af. Þetta er í raun bara framhald á sama gamla stagglinu – nema hvað að nú er Einar Haf farinn að horfast í augu við vandann og viðurkenna hann fyrir sjálfum sér og öðrum. Annað sem ég var að spá í, hafa inngangarnir í bloggfærslum Einars Haf alltaf verið svona lélegir?

Sláturtíð hefur nú staðið yfir um nokkurt skeið og gengið vel. Lömbin sem fögnuðu í vor þögnuðu nú í haust, en áhorfendur rögnuðu meðan þeir horfðu á Gló Mögnuðu. Þetta segir sig sjálft. Lambakjöt er vitanlega besta kjöt sem völ er á, nú sem endranær. Um það verður ekki deilt. Ég tala nú ekki um þegar búið er að reykja kjötið í reykhúsinu á Urðum. Í þessu samhengi má nefna sperðlana, sem ég tók svo eftirminnilega þátt í að búa til fyrir skemmstu. Þeir hafa nú verið teknir niður úr reykingakofanum og verið smakkaðir, maður lifandi.

Um síðustu helgi slóst undirritaður í hóp með Ungmennafélaginu Óþokka þar sem liðsmenn þess héldu til Hull í Bretlandi í svokallaða menningarferð. Tilgangur ferðarinnar var loðinn og teygjanlegur eins og þessi frásögn. Spilaður var fótbolti, farið í fótboltagolf og horft á fótboltaleik í Sheffield. Farið var í rútu, leigubíl og lest. Svo var farið á knæpur, krár og bari. Ekki er hægt að greina frá ferðinni í frekari smáatriðum af ótta við lögbann – eða leikbann.

Þingstörf ganga vel eins og alltaf. Afar málefnalegar umræður hafa farið fram undanfarið um fundarstjórn forseta. Vonir standa til að frumvarp um fundarstjórn forseta komist gegnum þingið fyrir jól. Það er jú farið að styttast verulega í jólin.

Samningaviðræður á almennum vinnumarkaði ganga líka vel. Eða kannski ekki. Landspítalinn er í lamasessi vegna tíðra verkfalla en það sem verra er er að vínbúðirnar hafa þurft að loka og þar af leiðandi eru menn að verða verulega þurrbrjósta og leiðinlegir. Krafa verkalýðsins er sem fyrr betri bílar, yngri konur, eldra viskí og meiri pening.

Framtíðardagurinn var haldinn hátiðlegur í fortíðinni í gær, 21. október. Þá var þess minnst að 30 ár eru síðan Marty McFly og Doktorinn í bíómyndaþríleiknum Back to the Future flökkuðu 30 ár fram í tímann, frá árinu 1985 til ársins 2015, nánar til tekið 21. október. Spekingar hafa rýnt í hverju spáð var um framtíðina í myndinni og hvað hefði ræst af þeim spádómum. Risaskjáir, tölvuleikir án handa og þrívídd voru meðal þess sem hefur ræst, afnám gjaldeyrishafta og íslenski fasteignamarkaðurinn er meðal þess sem myndin spáði ekki rétt fyrir um. En það er jú ekki hægt að sjá allt fyrir.

Nú er auglýst að jólagarðurinn í Smáralind opni um helgina, nánar til tekið fyrsta vetrardag. Loksins loksins. Guði sé lof. Ég sem var farinn að óttast að jólagarðurinn myndi bara hreinlega alls ekkert opna í ár. Í IKEA eru menn auðvitað byrjaðir að skreyta og matsölustaðurinn farinn að bjóða upp á rammíslenskt (að eigin sögn) hangikjöt – sem verður á boðstólnum alla daga til jóla. Ætli verði ekki farið að slá í kjötið og kokkinn síðustu dagana fyrir jól. Og ekki langar mig í hangikjötið af kokkinum, það er önnur saga.

Veturnætur langar valda
vesæld innst í minni sál
Einars angist djúpa falda
ætlar upp að kveikja bál.

Vorboðinn minn litli ljúfi
lagðist út í skafl og dó
í stað hans á ég von á Stúfi
strjúkandi sinn stinna þjó.

Jólin koma ekki snemma í ár. Skoðið bara almannakið.

Einar í framtíðinni.

Tilvitnun dagsins:
Dr. Emmett Brown: Great Scott!

One thought on “Orð á fornum slóðum”

  1. Inngangarnir voru einu sinni betri en hversu oft er hægt að endurskrifa sama brandarann? 🙂

    Mannstu annars eftir ferðinni til Bretlands?

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *