Orð á akureyri.net aftur og enn á ný

Góðir lesendur.

Þessi pistill fjallar um efni sem er mér mjög kært og ég á raunar nóg til af á lager; fitu.

Íslendingar eru fyrir nokkru síðan dottnir út af lista yfir ríkustu þjóðir heims. Hins vegar eru Íslendingar komnir á lista yfir feitustu þjóðir heims. Það þýðir ekkert að gráta það, við getum bara róið í eigin spiki á meðan við finnum lausn á þessum vanda. Vísindamenn reyna nú að átta sig á hvar skýringin á þessu liggur. Alltaf eru að berast fréttir af risastórum skokkhópum, metfjölda í heilsurækt, cross-fit keppnum, boot-camp æfingum, harðkjarna (e. hardcore) fitubrennsluefnum og þar fram eftir götunum. Samt eru Íslendingar 60% of feitir eða þungir. Eða nei, 60% Íslendinga eru of feitir eða þungir. Sumir telja að ástæðan sé sú hversu þungt hljóðið sé í okkur um þessar mundir. Aðrir halda því fram að landsþekkt söfnunarárátta Íslendinga nái ekki bara yfir penna og frímerki heldur einnig spik, þannig að nú safna margir spiki viljandi. Enn aðrir vilja meina að kaloríurnar leynist bara svo víða að saklaus almúginn átti sig ekki á því þegar keypt er í matinn eða sest að snæðingi að kaloríubomburnar leynast við hvert munnvik. Vissuð þið til dæmis að bara í þessari efnisgrein sem þið hafið nú meðtekið eru 170 kaloríur? Þetta skýrir að einhverju leyti vaxtarlag undirritaðs.

Ég er svo aldeilis hlessa. Eða hlussa. Fituhlussa. Ástandið er grafalvarlegt og róðurinn er þungur. Róðurinn í spikinu það er að segja. Hvert þó í feitasta segi ég nú bara. Við, selspikaðir fituhjallar, grátum að sjálfsögðu djúpsteikingarfeitisblönduðum kokteilsósutárum yfir ástandinu því allar bjargir virðast bannaðar. Meira að segja megrunarkúrar eru fitandi samkvæmt nýjustu fréttum og rannsóknum. Og hvar er huggun að finna þegar ástandið er svona? Hvar annars staðar en í mat? Það er því um sannkallaðan vítahring að ræða.

Það er ekki nóg með að Íslendingar séu feitir, heldur henda þeir mörg hundruð tonnum af mat á ári hverju sem þeir geta ekki torgað. Gráðugu svín. Á meðan svelta milljónir manna víðsvegar um heimsbyggðina. Hvernig stendur á þessu? Ég veit það ekki, ég þekki ekki hvernig það er að henda mat enda hef ég aldrei gert slíkt (eins og sést á mér). Ef svo ólíklega vill til að maturinn klárist ekki á mínu heimili fá hænurnar afgangana, því næst kötturinn og loks hundurinn. Vilji kötturinn og hundurinn ekki afgangana fæ ég þá aftur og klára. Þannig er hringrásin.

Það er ekki bara á Íslandi sem fitan safnast upp. Jarðarbúar fitna stöðugt að meðaltali og þeim fjölgar líka stöðugt. Nú þegar mannfjöldi á jörðinni er kominn yfir 7 milljarða manna er augljóst að landrými minnkar með hverju árinu, en munnunum sem metta þarf fjölgar hins vegar á ógnarhraða. Vesturlandabúar spikast, íbúar í Afríku eru margir hverjir að horfalla. Hér felst því lausnin augljóslega í því að fitujafna, samanber kolefnisjöfnunina þarna um árið. Það er til nóg af uppsafnaðri fitu handa öllum. Enginn ætti að þurfa að líða hungur og sult, það er til nóg fita í heiminum. Vesturlandabúar, sérstaklega Íslendingar, myndu líka þiggja það ef hægt væri að flytja fituna úr landi og bæta henni á íbúa í öðrum heimsálfum þar sem fita er af skornum skammti.

Hvernig endar þetta annars allt saman? Með ósköpum auðfitað. Auðvitað meina ég. Flugvélasætin stækka, rúmin breikka, fötin víkka og auka þarf burðarþol brúa. Ekki nóg með það; byggja þarf nýtt hátæknisjúkrahús þar sem gamla sjúkrahúsið rúmar ekki allar þessar feitabollur. Svo þarf líka að byggja nýtt fangelsi af sömu ástæðu. Hvernig endar svo þessi pistill? Nú, Einar springur úr spiki. Afsakið sóðaskapinn.

Það er best að hætta að svo komnu máli, enda er pistlahöfundur nú þegar kominn langt yfir spikið……eða strikið.

Höfundi tókst ekki að gera hreint fyrir sínum dyrum meðan á gerð þessa pistils stóð, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og afar sterk hreinsiefni. 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *